Guðmundur Magnússon, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, hefur ákveðið að sækjast eftir áframhaldandi setu í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi. Guðmundur leggur mikla áherslu á að áfram verði haldið á sömu braut og undanfarin ár við að halda úti öflugri grunnþjónustu um leið og unnið er að uppbyggingu bæjarfélagsins með ráðdeild og fyrirhyggju að leiðarljósi.

„Þegar ég kynnti stefnumál mín fyrir fjórum árum lagði ég einkum áherslu á þrennt; ráðdeild í rekstri og fjárfestingum bæjarfélagsins, forgangsröðun í nýtingu fjármuna og að lágmarka álögur á heimilin í bænum – og stefna á lækkun þeirra ef nokkur kostur væri. Þannig gætu heimilin sjálf betur tekist á við erfiðar afleiðingar efnahagsþrenginga. Nú við lok kjörtímabilsins er ég stoltur af því að með ráðdeild og góðri samvinnu okkar sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi hefur þetta allt tekist“, segir Guðmundur í tilkynningu.

Á komandi kjörtímabili mun ég leggja áherslu á að halda beri áfram á sömu braut, horfa skuli til framtíðar og leggja fjármuni til hliðar svo takast megi á við stóru verkefnin sem framundan eru þegar færi skapast.

„Ég hef mikinn metnað og áhuga á að halda áfram að starfa í þeirri samhentu forystusveit Sjálfstæðisflokksins sem leitt hefur stjórn bæjarins á yfirstandandi kjörtímabili og óska því eftir stuðningi í 2. sæti listans í prófkjörinu þann 9. nóvember nk,“ segir hann.

Guðmundur Magnússon er giftur Lisbeth Thompson og eiga þau 3 börn. Hann hefur verið bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi frá árinu 2010 og setið sem formaður fjárhags- og launanefndar bæjarins frá sama tíma. Guðmundur stofnaði fyrirtækið Margt smátt árið 1988 og rak það til ársins 2005. Hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri Áberandi ehf. frá árinu 2011. Guðmundur er með BA gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst og lék á árum áður knattspyrnu með meistaraflokkum KR og Fylkis ásamt yngri landsliðum Íslands.