Guðmundur Gunnarsson hætti nýverið sem formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Hann hafði verið formaður sambandsins frá árinu 1993. Kristján Þórður Snæbjarnarson tók við af honum. Guðmundur sagði sjálfur, er hann hætti, að hann hafi fyrst og fremst viljað hætta á þessum tímapunkti og hleypa nýjum mönnum að. Hann er fæddur 29. október 1945 og verður því 66 ára á þessu ári. Guðmundur er kvæntur Helenu Sólbrá Kristinsdóttur textílhönnuði. Þau eiga sex börn og ellefu barnabörn.

Hefur komið víða við

Guðmundur hefur á starfsferli sínum komið víða við, einkum þó innan stéttarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar. Hann tók sveinspróf í rafvirkjun 1966 og brautskráðist sem rafiðnfræðingur frá Tækniskóla Íslands 1969. Hann kenndi við Kennaraháskóla Íslands frá árinu 1978 og fram að því að hann varð formaður Rafiðnaðarsambandsins, 1993 eins og áður sagði.

Hann hefur komið að pólitísku starfi og var m.a. varaborgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1994 til 1998. Af samferðamönnum sem Viðskiptablaðið ræddi má ráða að Guðmundur sé harður í horn að taka ef svo ber undir, en sé einnig traustur og góður samstarfsfélagi. Hann þykir einnig úrræðagóður þegar kemur að vandamálum sem leysa þarf innan tímamarka. „Hann er fljótur að greina mál,“ segir einn viðmælenda.

Getur verið „hvass“

Guðmundur hefur undanfarin ár bloggað reglulega og skrifað um ýmis málefni á vefsvæðinu eyjan.is. Þar birtast pistlar undir yfirskriftinni; Guðmundur – enginn er eins blindur og sá sem ekki vill sjá. Guðmundur hefur skrifað pistla um ýmislegt, meðal annars lífeyrissjóðina og stöðu þeirra, auðmenn, hrunið, launakjör, efnahagsmál og ýmislegt fleira. Oftar en ekki liggur Guðmundur ekki á skoðunum sínum heldur skrifar með hvössum stíl um það sem hann telur vera rangt.

Einkum á þetta við um þá sem gagnrýna forystu stéttarfélaga, sem hann telur ekki byggða á staðreyndum. Pistill sem hann birti á vefsíðu sinni sl. sunnudag, 8. maí, er ágætt dæmi um stíl hans. Fyrirsögnin á þeim pistli er „Hið endalausa rugl Hreyfingarinnar“. Þar gagnrýnir hann harðlega afstöðu þingmanna Hreyfingarinnar til nýgerðra kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins. Segir hann m.a. Hreyfinguna gefa „út hverja rugl tilkynninguna á fætur annarri“.

Tónlistin

Þótt Guðmundur sé þekktastur sjálfur fyrir verkalýðsbaráttuna og baráttu fyrir betri kjörum rafiðnaðarmanna þá er ekki hægt að minnast á Guðmund öðruvísi en að nefna að hann er faðir þekktasta Íslendings í veröldinni, Bjarkar Guðmundsdóttur.

Hún hefur átt einstakri velgengni að fagna á sínum ferli, í Sykurmolunum fyrst og síðar á sólóferli. Guðmundur er vitanlega afar stoltur af góðum árangri dóttur sinnar og hennar listrænu næmni.