„Ég hef engan áhuga á að taka þátt í formannsslag. Átök um embætti og völd innan stjórnmálaflokka eru töluverð meinsemd, að mínu viti,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, í stöðuuppfærslu á Facebook . Leggur hann til að embætti innan flokksins róteri heldur á milli fólks.

Töluvert hefur verið rætt um stöðu Guðmundar undanfarna daga og margir innan Bjartrar framtíðar viðrað þá skoðun að hann þurfi að endurnýja umboð sitt sem formaður flokksins. Hefur Heiða Kristín Helgadóttir, einn stofnenda flokksins, til að mynda lýst yfir áhuga á að taka við formannsstöðunni.

Guðmundur segir að heilu stjórnmálahreyfingarnar, sem gæddar séu fögrum hugsjónu, standi lamaðar í kjölfar slíkra átaka. „Fókusinn á brýn úrlausnarefni í þjóðfélaginu, á verkefnin sem ráðast þarf í, hverfur í skuggann.“

Róteri embættum

Hann segir að í lögum Bjartrar framtíðar sé öll áhersla lögð á öfugan píramída og þátttöku í stjórnmálum á grunni hugsjóna um þjónandi forystu. Átökin eigi flokksmenn heldur að eiga við andstæðinga í pólitík. Leggur hann því eftirfarandi til:

„Látum embættin innan flokksins, formennsku, stjórnarformennsku og þingflokksformennsku rótera á milli fólks. Tökum jafnari ábyrgð. Setjum fókusinn á málefnin, gildin, stefnuna. Hugsjónirnar. Berjumst fyrir þeim, en minna við hvort annað,“ skrifar Guðmundur.

Hann segir að í þessu felist að hann yrði sjálfur ekki lengur formaður, nema þegar röðin kæmi að honum að axla ábyrgð til jafns við aðra.

„Það er hugur í mér. Ég vil ganga í öll þau störf sem flokksmenn kunna að fela mér og gera mitt allra besta til að styðja aðra, sem aðhyllast okkar hugsjónir, í sömu verkum. Það á enginn að starfa í Bjartri framtíð með því skilyrði að hann sé formaður, eins og það sé aðalatriðið. Það gildir um mig, og aðra,“ segir Guðmundur.