Guðmundur marteinsson framkvæmdastjóri Bónus segir í viðtali í Morgunblaðinu nú í morgun að hann hafi sagt starfinu upp í febrúar á síðasta ári. Kaup Haga á Olís hafi verið hluti af ástæðunni.

Sagt var frá því í lok apríl í tilkynningu til Kauphallarinnar að Guðmundur og Finnur Árnason, þáverandi forstjóri Haga, hefðu óskað eftir að láta af störfum, en myndu starfa áfram þar til arftaki yrði ráðinn.

Guðmundur dró uppsögn sína svo til baka um miðjan júní eftir að samkomulag náðist við fyrirtækið, en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu í hátt í 30 ár.

Í viðtalinu við Morgunblaðið segir hann uppsögnina hafa verið ótengda uppsögn Finns; hann hafi einfaldlega verið ósammála þeirri stefnu sem tekin hafi verið hjá Högum. Í því sambandi nefnir hann meðal annars kaupin á Olís og Reykjavíkur Apóteki, en samkvæmt sátt samstæðunnar við Samkeppniseftirlitið vegna kaupanna þurfti að loka þremur verslunum Bónus. Nú sé hinsvegar verið að vinna í því að „rétta kúrsinn“.

Hann segir að fyrir kaupin hafi fjármálasérfræðingar rætt um að Hagar „skulduðu ekki nógu mikið“, og hann hafi allt í einu heyrt hugtök sem hann skildi ekki alveg. Hann telur að Hagar ættu almennt ekki að kaupa fyrirtæki ef til þess þurfi undanþágur frá Samkeppniseftirlitinu.