Stjórn Landsnets hefur ráðið Guðmund Inga Ásmundsson í starf forstjóra fyrirtækisins. Stjórnarformaður Landsnets, Geir A. Gunnlaugsson, tilkynnti um ráðninguna á fundi með starfsfólki í morgun.

Guðmundur Ingi hefur verið aðstoðarforstjóri Landsnets frá árinu 2008. Hann tekur við starfi forstjóra um áramót af Þórði Guðmundssyni, sem hefur stýrt fyrirtækinu frá stofnun þess en lætur nú af störfum að eigin ósk.

Guðmundur Ingi er fæddur 1955. Hann lauk mastersgráðu í raforkuverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet árið 1982. Hann hóf störf hjá Landsvirkjun að námi loknu sem sérfræðingur í kerfisrannsóknum og var ráðinn yfirverkfræðingur raforkukerfissviðs árið 1992 og kerfisstjóri Landsvirkjunar ári síðar.

Þegar Landsnet tók til starfa í ársbyrjun 2005 var Guðmundur ráðinn framkvæmdastjóri kerfisstjórnar Landsnets með ábyrgð á stjórnun raforkukerfisins, gæðum, rekstraráhættu og uppbyggingu þess. Hann varð aðstoðarforstjóri Landsnets árið 2008 með m.a. ábyrgð á að leiða uppbyggingu fyrirtækisins og flutningskerfisins til framtíðar ásamt þróunar- og nýsköpunarverkefnum.

Guðmundur Ingi var fulltrúi Landsvirkjunar og síðar Landsnets í markaðsnefnd NORDEL, fulltrúi Landsnets í aðalstjórn ENTSO/E í Brussel og situr í stýrihópi ENTSO/E vegna rannsóknar og þróunarmála. Þá var hann fenginn til að leiða stofnun Alstom-samtakanna fyrir notendur orkustjórnkerfa í Evrópu og Asíu og var fyrsti formaður þeirra.

Hann undirbjó m.a. á sínum tíma stofnun fjarskiptafélags Landsvirkjunar og Landsnets sem annast fjarskipti í orkukerfinu, hann er stjórnarmaður í Icelandic Geothermal og situr í stjórn Orkufjarskipta hf. og var stjórnaformaður þess félags um tíma.