Guðmundur Hafsteinsson, yfirmaður vöruþróunar á Google Assistant, hefur tekið að sér formennsku í stýrihópi um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, samkvæmt tilkynningu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráuðneytisins .

Guðmundur er með MBA gráðu frá Massachusetts Institute of Technology, og próf í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands, og hefur starfað hjá Google síðan 2014.

„Á tímum mikilla breytinga er öflug og kraftmikil nýsköpun í atvinnulífinu forsenda þess að við tryggjum góð lífskjör á Íslandi til framtíðar. Guðmundur hefur um árabil verið stjórnandi í leiðandi tæknifyrirtæki á heimsvísu og það er ómetanlegt að fá hans sýn og þekkingu nú þegar að við leggjum á ráðin hvernig árangursríkast sé að takast á við áskoranir framtíðarinnar.“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ráðherra nýsköpunarmála.