Þrír nýir fulltrúar voru kjörnir í stjórn sjávarútvegsfyrirtækisins HB Granda á aðalfundi félagsins síðdegis í gær. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, Magnús M.S. Gústafsson, fyrrverandi forstjóri Coldwater Seafood og Atlantika INC í Bandaríkjunum, og Eggert Benedikt Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri HB Granda og N1, koma inn í stjórnina.

Alls voru sjö einstaklingar í framboði til stjórnarsetu í HB Granda.

Fimm einstaklingar sitja í stjórn HB Granda, en þær Anna G. Sverrisdóttir, sjálfstætt starfandi ráðgjafi, og Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, sitja áfram í stjórninni.

Sjá einnig: Selur í Granda fyrir 21,7 milljarða

Á aðalfundi HB Granda var einnig samþykkt tillaga um að greiða 0,7 krónur á hlut eða alls 1,3 milljarða króna í arð til hluthafa vegna síðasta rekstrarárs. Arðurinn verður greiddur út 31. maí næstkomandi. Þá voru stjórnarlaun hækkuð úr 264 þúsund krónum á mánuði í 285 þúsund. Laun stjórnarformanns eru 570 þúsund krónur og varaformanns 428 þúsund.