Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, mun ekki starfa með Jóhannesi Jónssyni, oft kenndan við Bónus, í nýjum verslunum Jóhannesar sem opna hér á landi í sumar.

Þetta staðfestir Guðmundur í samtali við Viðskiptablaðið. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið og komandi samkeppni.

Eins og greint var frá á forsíðu Viðskiptablaðsins í morgun stefnir Jóhannes að því að opna Iceland verslanir hér á landi „síðla“ sumars eins og hann orðar það í samtali við blaðið. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að fyrsta verslunin verði opnuð þann 17. júní nk.

Malcolm Walker, stofnandi og eigandi Iceland Food, staðfesti einnig í samtali við Viðskiptablaðið að til stæði að opna verslanir undir merkjum Iceland á Íslandi.

Guðmundur Marteinsson tók við framkvæmdastjóra Bónus sumarið 1998. Stöðu sem Jón Ásgeir Jóhannesson gegndi áður. Hann hefur starfað í Bónus frá árinu 1992, eða í  20 ár. Í útboðslýsingu Haga, móðurfélags Bónus, fyrir skráningu í Kauphöllina á síðasta ári kom fram að Guðmundur væri með þriggja ára uppsagnarfrest hjá fyrirtækinu. Þá kom einnig fram að Guðmundur ætti 0,2% hlut í Högum, sem þá var metinn á bilinu 31-38 milljónir króna.