*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 29. nóvember 2013 10:52

Guðmundur: Myndi ljúga ef ég segðist skilja svarið

Guðmundur Steingrímsson spurði forsætisráðherra á Alþingi hvernig ætti að fjármagna skuldaniðurfellingar.

Ritstjórn
Edwin Roald Rögnvaldsson

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar Framtíðar, spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að því í dag hvaða peninga ætti að nota til þess að lækka skuldir fasteignaeigenda. Guðmundur spurði að þessu í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra svaraði því til að svigrúm þyrfti að skapast í samningum við kröfuhafa föllnu bankanna til þess að hægt sé að aflétta fjármagnshöftum. „Hið margumrædda svigrúm þarf að myndast vegna þess að það er of mikið fjármagn í umferð. Það þarf að draga úr fjármagni í umferð til að hægt sé að aflétta fjármagnshöftum,“ sagði Sigmundur Davíð meðal annars í svari sínu. 

„Virðulegur forseti. Ég myndi ljúga ef ég segðist hafa skilið þetta svar. Og ég ætla ekki að ljúga,“ sagði Guðmundur Steingrímsson. „Jú, það eru peningar fastir inni í íslensku hagkerfi. Það vitum við. Mig grunar að hæstvritur forsætisráðherra eigi við að hann ætli að ná í hluta af þeim peningum. En eftir stendur  spurningin; hvernig?“ spurði Steingrímur. Hann vildi vita hvort menn væru að ræða skattlagningu á þrotabúin eða eitthvað annað. Ekki væri verið að semja við kröfuhafa um þetta. Það hefði ekkert frést af því. 

Sigmundur Davíð sagði að sér þætti það leitt ef Guðmundur hefði ekki skilið svör sín en hann þyrfti ekki að bíða lengi eftir frekari svörum.