Fjárfestirinn Guðmundur A. Birgisson, kenndur við bæinn Núpa í Ölfusi, var úrskurðaður gjaldþrota í héraðsdómi Suðurlands 20. desember í fyrra. Skiptastjóri þrotabús Guðmundar lýsir eftir kröfum í þrotabúið í Lögbirtingablaðinu í dag.

Guðmundur hefur fjárfest víða í gegnum tíðina og var m.a. einn hluthafa í félaginu Lífsvali, sem átti tugi jarða vítt og breytt um landið. Þá var hann hluthafi í Bang & Olfusen á Íslandi, Hótel Borg og víðar. Hann var frændi Sonju Wendel Benjamínsson Zorilla, sem lést árið 2002. Sonja auðgaðist á fjárfestingum á Wall Street og voru eignir hennar um síðustu aldamót metnað á í kringum tíu milljarða króna. Guðmundur var við annan mann settur yfir minningarsjóð hennar sem átti að styrkja langveik börn á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Nánar má lesa um Sonju í bókinni Ríkir Íslendingar, sem kom út árið 2001 auk þess sem ævisaga hennar kom út ári síðar.