Guðmundur H. Björnsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri Icewear. Guðmundur, sem hefur talsverða reynslu af markaðs- og sölumálum, kemur til Icewear frá 365 miðlum þar sem hann var forstöðumaður markaðs- og vörustjórnunarsviðs, segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Guðmundur kemur til með að sinna stefnumótun og áætlanagerð í markaðsmálum, daglegum rekstri markaðsdeildar og samskiptum við fjölmiðla og samstarfsaðila.

„Áður hefur Guðmundur meðal annars starfað sem forstöðumaður sölu- og markaðssviðs hjá Tal,  vöru- og viðskiptaþróunarstjóri hjá Já og faglegur stjórnandi markaðsmála hjá Símanum. Hann er með B.Sc gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Tækniháskóla Íslands, ásamt því að hafa lokið námi í rekstrarfræði frá sama skóla. Guðmundur hefur einnig setið í stjórnum ýmissa félagasamtaka,“ segir í tilkynningunni.

Þar er einnig haft eftir Guðmundi að hann kveðist spenntur yfir því að ganga til liðs við Icewear á þessum tímapunkti, enda margir áhugaverðir hlutir að gerast hjá fyrirtækinu, að hans sögn. „Icewear hefur vaxið hratt undanfarin misseri og tel ég mikil tækifæri til staðar, bæði hér heima og erlendis, í þeim verkefnum sem fram undan eru og hlakka mikið til að vinna með þeim öfluga hópi fólks sem starfar hjá fyrirtækinu,“ er einnig haft eftir Guðmundi.