Guðmundur H Kjærnested stýrir nýju upplýsingatæknisviði Háskóla Íslands og Sigríður Sigurðardóttir er nýr sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs.

Upplýsingatæknisvið er nýtt miðlægt stjórnsýslusvið innan skólans sem tekur við hlutverki Reiknistofnunar Háskóla Íslands auk auk þess sem ýmis víðtækari verkefni heyra undir sviðið.

Það hefur umsjón með upplýsingatæknimálum Háskólans í samræmi við hlutverk og stefnu hans og ber ábyrgð á þróun, rekstri, samhæfingu, þjónustu og ráðgjöf á sviði upplýsingatæknimála fyrir Háskólann í heild. Guðmundur mun gegna starfi forstöðumanns Reiknistofnunar uns gengið hefur verið frá framtíðarskipulagi sviðsins og stofnunarinnar.

Guðmundur H. Kjærnested lauk námi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1988 og civilingeniør-námi í rafmagnsverkfræði frá DTU í Danmörku árið 1990.  Guðmundur starfaði sem forstöðumaður tölvudeildar ríkisskattstjóra 1992-1998 og tók þar þátt í tölvuvæðingu skattkerfisins. Hann var yfirmaður tölvumála Landsbanka Íslands 1998-2004 þar sem unnið var að eflingu upplýsingavinnslu bankans og þá sérstaklega netbanka fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Guðmundur starfaði frá 2004 sem framkvæmdastjóri Rekstrarfélags Stjórnarráðsins sem sér um rekstur og þróun tölvukerfa ráðuneyta og nokkurra stofnana ásamt rekstri og viðhaldi fasteigna Stjórnarráðsins. Framkvæmda- og tæknisvið er eitt af sjö miðlægum stjórnsýslusviðum Háskóla Íslands. Hlutverk þess er að hafa yfirumsjón með málefnum er lúta að lóðum háskólans, byggingum og mannvirkjum sem og rekstri á þeim.

Sigríður Sigurðardóttir lauk Dipl.Ing.-námi í arkitektúr frá Háskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi 1994, prófi frá Endurmenntun Háskóla Íslands í viðskipta- og rekstrargreinum 1998 og í framkvæmdaferli mannvirkjagerðar 2011 auk prófs frá Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands í Reiðmanninum 2010. Hún stóðst árið 2014 hæfismat stjórnarmanna eftirlitsskyldra aðila frá Fjármálaeftirlitinu.

Sigríður var verkefnastjóri nýbyggingar hátækniseturs Alvogen/Alvotech í Vatnsmýrinni 2013-2016. Á árunum 2001-2013 starfaði Sigríður hjá verkfræðistofunni Eflu og var sviðsstjóri verkefnastjórnunarsviðs frá 2008 og sat í stjórn fyrirtækisins frá 2008-2013. Sigríður var starfsmaður utanríkisráðuneytisins 1999-2000 sem framkvæmdastjóri íslenska sýningarskálans á heimssýningunni Expo 2000 í Þýskalandi og á árunum 1995-1998 starfaði hún hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.

Sigríður er í fagráði verk- og tæknifræði og arkitektúr og hefur verið umsjónarmaður námsbrautarinnar Framkvæmdaferli mannvirkjagerðar hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún sat í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins 2011-2017, skipulagsnefnd Hafnarfjarðar 1998-2002 og í Menntanefnd Arkitektafélags Íslands 1996-1998. Sigríður hefur sinnt dómnefndarstörfum í ýmsum arkitektasamkeppnum á vegum einkaaðila og ríkisins.