Guðmundur Rúnar Árnason, fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði, var talinn hæfari í starf verkefnastjóra Þróunarsamvinnustofnunar í Malaví þótt hann hafi hvorki formlega menntun í þróunarmálum né hafi starfað í geiranum. Hann hætti nýverinn sem bæjarstjóri og var ráðinn til starfans um miðjan mánuðinn.

Í DV í dag er bent á að 80 umsækjendur voru um stöðuna. Þar á meðal voru Guðbrandur Þorkelsson, yfirlæknir á heilsugæslu Grafarvogs, sem starfað hefur í Malaví á vegum Þróunarsamvinnustofnunar vegna uppbyggingar spítala í Monkey-Bay í Malaví; Ragnheiður Kolsöe, sem starfaði sem þróunarfulltrúi á vegum íslensku friðargæslunnar í Ghor-héraði í Afganistan og hafði hún m.a. umsjón með framkvæmdum við vatnsaflsvirkjanir þar. Hún vann skýrslu fyrir Þróunarsamvinnustofnun um fullorðinsfræðsluverkefni stofnunarinnar í Malaví árið 2004. Þá sótti Ásdís Bjarnadóttir um stöðuna. Hún hefur stundað nám við School of Oriental and African Studies í London og var í Malaví sem starfsnemi á vegum Þróunarsamvinnustofnunar árið 2008. Á meðal annarra umsækjenda var Halldóra Traustadóttir þróunarfræðingur, sem starfaði á vegum Þróunarsamvinnustofnunar í Namibíu árið 2005, meðal annars að lýðheilsumálum.

DV greindi frá því í síðustu viku að það hefði heimildir fyrir því að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi átt þátt í að Guðmundur Rúnar var ráðinn. Engilbert Guðmundsson, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, hefur vísaði því á bug.

Ráðningaferli Guðmundar tók þrjá mánuði. Capacent sá um ráðgjöf við ráðninguna en auk ráðningarstjóra fyrirtækisins sat yfirmaður þróunarsamvinnusviðs utanríkisráðuneytisins í matsnefnd sem réð Guðmund.