„Þetta er sjónarspil!“ segir þingmaðurinn Guðmundur Steingrímsson, sem situr á þingi utan flokka en ætlar fram fyrir Bjartra framtíð í næstu þingkosningum í apríl. Hann sagði í sérstökum umræðum um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem greint var frá í gær að hægja á aðildarviðræðum stjórnvalda við Evrópusambandið að í raun hafi ekki staðið til að opna fleiri kafla í aðildarviðræðunum fyrr en í haust. Að hans mati skilar ákvörðunin engu. Fleiri þingmenn tóku undir með Guðmundi.

Það var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem óskaði eftir umræðunum á Alþingi. Össur svaraði því m.a. til að ferlið tefjist um þrjá mánuði. Þrátt fyrir að hægt hafi á viðræðunum sé enn unnið við þá kafla í þeim sem búið er að opna.

Guðmundur sagði m.a. aðildarviðræðurnar snúast um lýðræði og sjálfstæði þjóðarinnar, kaupmátt og laun og því hvort þjóðin sé þátttakandi í ákvarðanatöku eður ei. „Ég tilheyri þeim hluta þjóðarinnar sem vill taka þátt,“ sagði hann.