Guðmundur Bernharð Flosason hefur verið ráðinn listrænn stjórnandi hjá vefhönnunarstofunni Kosmos & Kaos. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Guðmundur er nýmiðlunarhönnuður að mennt og útskrifaðist frá KEA – Copenhagen School of Design árið 2004. Síðustu 10 ár hefur hann starfað á auglýsingastofum, nú síðast á ENNEMM en þar áður Hvíta Húsinu og Íslensku auglýsingastofunni. Guðmundur hefur setið í fjölda dómnefnda á vegum Félags íslenskra teiknara (FÍT) og hlotið bæði Ímark og FÍT verðlaun fyrir vinnu sína.

„Við höfum undanfarnar vikur verið að styrkja rekstarhliðina og þjónustuteymið. Nú er komið að því að bæta við okkur reynslu úr hefðbundnari grafískum miðlum til að svara eftirspurn viðskiptavina okkar. Tæknin á vefnum er að þróast hratt og margt sem aðeins var hægt á prenti, er nú hægt að gera á vefnum. Einnig höfum við fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir því að endurmörkun fyrirtækja sé unnin samhliða uppfærslu á vef. Við erum byrjuð að feta okkar fyrstu spor með að vinna þetta saman.“ segir Inga Birna Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri Kosmos & Kaos.