Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi Brim, býður sig fram í stjórn félagsins á ný, en hann er sjötti frambjóðandinn fyrir utan sitjandi fimm manna stjórn. Þar með er ljóst að einhver hinna karlanna þriggja í stjórninni þarf að hætta vegna kynjakvóta enda Guðmundur langstærsti eigandi félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá keypti Guðmundur um þriðjungshlut í félaginu um miðjan apríl 2018, sem þá hét HB Grandi, á tæplega 22 milljarða, og settist í stjórnina og tók við stjórnarformennsku í kjölfarið.

Um sumarið tók hann einnig við forstjórastarfinu og hætti um leið sem stjórnarformaður en þá hætti Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, í kjölfarið í stjórninni, en þá var hún varaformaður stjórnar félagsins.

Í framhaldi af því sagði Guðmundur sig úr stjórninni , en nú má ætla að hann hyggist setjast í stjórnina á ný, á aðalfundi félagsins sem haldinn verður á þriðjudag, 31. mars næstkomandi.

Eftirtaldir hafa boðið sig fram í stjórn Brim:

  • Anna G. Sverrisdóttir
  • Eggert Benedikt Guðmundsson
  • Guðmundur Kristjánsson
  • Kristján Þ. Davíðsson
  • Kristrún Heimisdóttir
  • Magnús Gústafsson