*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 29. mars 2020 18:29

Guðmundur vill aftur í stjórn Brim

Forstjóri og aðaleigandi Brim sem sagði sig úr stjórn sumarið 2018 býður sig fram aftur. Einn karlmaður úr stjórn þarf að víkja.

Ritstjórn
Guðmundur Kristjánsson er forstjóri Brim og aðaleigandi Útgerðarfélagi Reykjavíkur, stærsta einstaka eigandans í Brim.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi Brim, býður sig fram í stjórn félagsins á ný, en hann er sjötti frambjóðandinn fyrir utan sitjandi fimm manna stjórn. Þar með er ljóst að einhver hinna karlanna þriggja í stjórninni þarf að hætta vegna kynjakvóta enda Guðmundur langstærsti eigandi félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá keypti Guðmundur um þriðjungshlut í félaginu um miðjan apríl 2018, sem þá hét HB Grandi, á tæplega 22 milljarða, og settist í stjórnina og tók við stjórnarformennsku í kjölfarið.

Um sumarið tók hann einnig við forstjórastarfinu og hætti um leið sem stjórnarformaður en þá hætti Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, í kjölfarið í stjórninni, en þá var hún varaformaður stjórnar félagsins.

Í framhaldi af því sagði Guðmundur sig úr stjórninni, en nú má ætla að hann hyggist setjast í stjórnina á ný, á aðalfundi félagsins sem haldinn verður á þriðjudag, 31. mars næstkomandi.

Eftirtaldir hafa boðið sig fram í stjórn Brim:

  • Anna G. Sverrisdóttir
  • Eggert Benedikt Guðmundsson
  • Guðmundur Kristjánsson
  • Kristján Þ. Davíðsson
  • Kristrún Heimisdóttir
  • Magnús Gústafsson