Vestfirski athafnamaðurinn Guðmundur Tryggvi Ásbergsson hefur sóst eftir því að kaupa allar íbúðir í eigu Fasteigna Ísafjarðarbæjar. Viðskiptablaðið sagði í gær frá ónafngreindum aðila sem vildi kaupa íbúðirnar og er Guðmundur umræddur aðili.

Fasteignir Ísafjarðarbæjar leigja út íbúðarhúsnæði og hafa samkvæmt vefsíðu Ísafjarðarbæjar yfir að ráða um 88 íbúðum á Ísafirði, 15 íbúðum á Suðureyri, 3 íbúðum á Flateyri og 11 á Þingeyri. Fyrirtækið er að fullu í eigu Ísafjarðarbæjar.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að bærinn sé opinn fyrir því að selja íbúðirnar ef rétt verð berst. Þó myndi bærinn líklega vilja halda einhverjum 15-20 íbúðum af félagslegum ástæðum. Gísli mun skoða málið betur á næstunni.

Guðmundur, sem þekktur er fyrir vestan sem Muggur, hefur verið nokkuð umsvifamikill í fasteignaviðskiptum á Vestfjörðum. Hefur hann meðal annars rekið þar gistihús og sótt um lóð fyrir fjölbýli. Hann vill ekki tjá sig um málið að svo stöddu.