„Ég tel að umræða um staðsetningu mosku í Reykjavík og sú orðræða sem það leiddi af sér gagnvart múslimum hafi gefið hatursfullum mönnum tilefni til að leiða umræðuna útí forarmýri,“ skrifar Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og eitt sinn landbúnaðarráðherra um það sem hann kallar aðför gegn Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknarflokksins í borgarstjórn.

Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir.
Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Guðni skrifar harðorða grein um málið sem birt er í Morgunblaðinu í dag og sakar ritsóða sem einskis svífist í pólitískum fordómum vilja reyna að hirða æruna af Framsóknarflokknum og forystumönnum hans í hundrað ár með því að brigsla honum við andstæðinga samkynhneigðra, þeldökka, múslima og fleiri. Hann segir tóninn ekki síst gefinn í Fréttablaðinu og DV, skammast út í ritstjóra blaðanna, nettröllin hafi fylgt á eftir sem níðist á öllu og öllum. Hann viðurkennir að Sveinbjörg Birna hafi vegna óvæginna viðbragða og reynsluleysis í pólitík gengið lengra en hún sjálf kaus og réð við.

Hjálp í Sighvati

Guðni segir Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi þingmann og ráðherra, þann eina sem hafi sýnt konu í vanda skilning og umburðarlyndi. Hann skynji að ómakleg árás sé í aðsigi bæði gagnvart Framsóknarflokknum, sögu hans og einstaklingum af hálfu fólks sem ekki gætir meðalhófs og ætlar sér með illu að eyðileggja bæði mannorð framsóknarmanna og orðstír flokksins.

Guðni segist sjálfur laus við fordóma. Hann skrifar:

„Ég hef stutt allar réttarbætur samkynhneigðra og fagnað mannréttindabaráttu þeirra og frelsi til lífs og ásta, Guð almáttugur skóp þá eins og okkur hin. Ég hef aldrei fordæmt gula eða þeldökka, aðeins einu sinni gripið til orða skáldsins um „Ísland fyrir Íslendinga,“ en með þeirri viðbót að mikilvægt væri að allir þeir er hingað flyttust frá útlöndum lærðu tungumálið til að verða fullgildir þátttakendur í samfélagi okkar. Ég vona að flestir þeir sem með mér hafa starfað á vettvangi lífsins þekki mín viðhorf og mitt réttlæti. Ég er í söfnuði þjóðkirkjunnar og gekk Jesú Kristi og lífsskoðunum hans á hönd barn að aldri, þar ríkir fyrirgefning og kærleikur til allra manna. Ég virði rétt annarra til að stunda sína trú fari þeir að lögum og mannréttindum, sem við höfum á mörgum sviðum verið öðrum þjóðum fremri og fyrr að setja. Mannréttindakafli Sameinuðu þjóðanna er okkar biblía. Ég bið svo ritstjórana og ritsóðana í netmiðlunum að horfa í sinn eigin spegil og spyrja sjálfa sig hvort það séu þeir sem séu með bjálkann eða flísina í auga. Ég tel Framsóknarflokkinn verðskulda aðra umræðu en nú er uppi - svo víða hefur hann komið að mannréttindum og enn leggur hann til miklar úrbætur í lífsskilyrðum Íslendinga.“