Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti um framboð sitt til embættis forseta Íslands á fundi í Salnum í Kópavogi fyrr í dag. Guðni hefur lengi verið orðaður við framboð en það var ekki fyrr en í dag sem hann staðfesti framboð sitt í fjölmiðlum.

„Forseti Íslands er málsvari landsins á alþjóðavettvangi, andlit okkar í augum heimsins. Hann á að styðja við menningu landsins og listir, atvinnu- og viðskiptalíf. Í þessum atbeina sínum fyrir Íslands hönd á forseti að vera stoltur en hógvær, kappsamur án yfirlætis, “ sagði Guðni í tilkynningarræðu sinni.

Guðni er fæddur árið 1968 og er dósent í sagnfræði. Hann hefur starfað sem kennari við fjölda háskóla auk þess sem hann hefur skrifað bækur og fræðigreinar um sögu og samtíð Íslands.