Guðni Th. Jóhannesson sagði í viðtali á Sprengisandi að hann tæki mótframboði Davíðs Oddssonar fagnandi. Hann sagði að Davíð væri einn umdeildasti stjórnmálamaður síðustu aldar.

„Ég fagna því að þessar forsetakosningar verði ennþá sögulegri,” segir Guðni. „Það eru mikil forréttindi fyrir mig að taka þátt í því að skapa söguna en vera ekki eingöngu að skrifa hana.”

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun ætlar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri, í forsetaframboð.

Guðni telur að framboð Davíðs muni ekki vinna með framboði Ólafs Ragnars. Honum finnst þá einnig ólíklegt að þeir tveir sæki í sömu atkvæðin. „Ég held að Ólafur Ragnar græði ekki á þessu,” segir Guðni.