Guðni Ágústsson, framkvæmdastjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði og fyrrverandi landbúnaðarráðherra, skýtur föstum skotum að þeim Margréti Kristmannsdóttur, formanni Samtaka verslunar og þjónustu, og Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra samtakanna, í grein í Morgunblaðinu í dag. SVÞ hafa talað fyrir því að tollar verði felldir niður af innfluttum mjólkur- og kjötvörum og segja að það myndi skila sér í lægra vöruverði fyrir neytendur. „Ekkert ber nú á því sama í öðrum vörum, fatnaði og húsgögnum eða tækjum og tólum, og ekki eru bændur eða stjórnvöld þar fyrirstaða. Íslenskur landbúnaður stendur fyrir sínu, það vita þessir forystumenn og viðurkenna í öðru orðinu. En þau hamra á þessu atriði eins og það eitt skipti máli.“

Guðni vísar, líkt og Margrét og Andrés, til McKinsey skýrslunnar og bendir á að í henni er fjallað um plássnýtingu í íslenskum verslunum, en fermetrar á mann í íslenskum verslunum eru mun fleiri en í löndunum í kringum okkur.

„Hverjir ætli borgi þessa óhagkvæmni? Auðvitað neytendur í hærra vöruverði. Förum út á Granda í Reykjavík þar standa allir stórmarkaðirnir í kór. Bónus, Krónan, Iceland, Nóatún og Víðir og stutt í Melabúðina. Melabúðin og Fjarðarkaup eru sennilega í sérflokki með nýtingu og arð, selja sig á gæðum og þjónustu. En dygði einn af hinum stóru mörkuðum til að anna allri verslun á þessu svæði? Á Selfossi eru t.d. bæði Húsasmiðjan og Byko, sagt var að stærð þeirra dygði fyrir þrjátíu þúsund manna byggð. Það er hljótt yfir þeim skýrslum sem eru til um tap og afskriftir í íslenskri verslun en árin 2009 til 2010 töpuðust alls þrjátíu milljarðar króna. Meðan íslenskur landbúnaður tapaði nánast engu og var í því að hagræða og lækka vöruverð til neytenda. Nú eru tollar bara á hluta af vörum. Eru innfluttar tollalausar vörur ódýrar hér, nei, það hefur komið í ljós að þær eru þær dýrustu á Norðurlöndum. Nú þykir mér vænt um íslenska verslun og kvarta ekki undan neinu nema þá háu verði,“ segir Guðni.

Hann leggur til að bændur og neytendur geri þá kröfu til verslunarinnar og ríkisstjórnarinnar að hagrætt yrði í versluninni, búðum fækkað eins og bændabýlum. „Formaður SA tók ekki afstöðu gegn landbúnaðinum, hann sagði einfaldlega að enginn ætti að vera undanskilinn hagræðingu, það á við um alla. Það var góður siður í sveitinni að moka sinn eigin flór. Svo var kannski hægt að bjóða hjálp við að stinga út úr fjárhúsi nágrannans. Sé landbúnaðarkerfið gallað, Margrét og Andrés, þá er verslunarkerfið gallað,“ klykkir Guðni út með.