Guðni Þórðarson, oftast kenndur við ferðaskrifstofuna Sunnu, skrifaði nýlega undir samning við stjórnvöld í lýðveldinu Kongó um að stýra uppbyggingu og síðan einkavæðingu ríkisflugfélags Kongó. Kemur þetta fram í viðtali við Guðna, sem er níræður í dag, í Fréttatímanum.

„Höfuðborgin Kinshasa er vel staðsett í Afríku, sunnan Sahara. Hugmyndin er að byggja þar upp flugstöð fyrir öll nágrannalöndin, Angóla, Zimbabwe, Kamerún og fleiri, og nota flugstöðina síðan í framhaldsflugi til Evrópuborga, Asíu, Kína, Brasilíu og Bandaríkjanna. Við ætlum að nota íslenska módelið sem Loftleiðir byggðu hér upp þegar Ísland var miðstöð flutninga milli Evrópu og Bandaríkjanna. Við ætlum að þróa það kerfi og setja upp í Kongó,“ segir Guðni. „Þetta er mikill trúnaður sem mér er sýndur.“

Hann segir að það hafi verið fyrir tilviljun að hann komst í samband við yfirvöld í Kongó. Fyrir tíu árum vildu stjórnvöld í Kongó endurvekja þar flugstarfsemi og vantaði flugvélar. „Þeir vildu ekki semja við Bandaríkjamenn um kaup á Boeing-vélum. Frændi minn, sem er hálfur af íslenskum ættum, var þá einn af aðalstjórnendum Boeing og hann bað mig að fara til Kongó til að athuga hvort þeir vildu semja við mitt fyrirtæki. Þeir samningar náðust og ég var kominn í viðskiptasamband við Kongó.“