Ný bók eftir Evu Laufeyju Kjaran, sjónvarpskonu og matarbloggara, kemur út á föstudaginn og verður útgáfuhóf á Restaurant Reykjavík samdægurs af því tilefni. Ekki nóg með það heldur mun Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, koma fram í teitinu.

Eva Laufey segir að þau Guðni eigi sameiginlegan kunningja og þannig hafi hugmyndin að aðkomu Guðna orðið til. „Hann ætlar að tala um mikilvægi þess að borða smjör og rjóma og nota það sem við eigum í matargerð,“ segir Eva Laufey.

Þetta er fyrsta bók Evu Laufeyjar og segist hún vera mjög spennt fyrir útkomu hennar. „En líka stressuð í leiðinni,“ segir hún. Eva Laufey er með mörg járn í eldinum þessa dagana, því auk þess sem hún hefur lokið við að skrifa bókina er hún með sjónvarpsþætti sem sýndir eru á Stöð 3. „Þetta er voða gaman. Það er gaman að geta gert það sem skemmtilegt er,“ segir hún. Að auki stundar Eva Laufey nám í viðskiptafræði til B.Sc. gráðu við Háskóla Íslands.