Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, starfar í dag sem framkvæmdastjóri Samtaka afurðastöðvar í mjólkuriðnaði (SAM). Mjólkursamsalan  (MS) hefur sætt mikilli gagnrýni síðustu vikur vegna brota á samkeppnislögum en Samkeppniseftirlitið hefur sektað MS um 370 milljónir fyrir að misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Nú hefur SAM sent frá sér tilkynningu þar sem segir hagræðing í mjólkuriðnaði hafi skilað sér til neytenda. Aðgerðir til að lækka vinnslukostnað í mjólkuriðnaði hafi hafist fyrir alvöru árið 2003 og síðan þá hafi kaupmáttur launa til kaupa á mjólkurvörum vaxið um 20%.  Frá árinu 2008 hafi verð á mjólkurvörum hækkað minna en vísitala neysluverðs og launavísitala.

Þessum árangri hafi verið náð með ríflega þriggja milljarða króna kostnaðarhagræðingu á ársgrunni síðustu 12 ár. Tveir milljarðar hafi gengið til beinnar raunlækkunar vöruverðs í gegnum ákvarðanir verðlagsnefndar búvöru og einn milljarður til að greiða bændum hærra mjólkurverð, sem þó hafi ekki valdið hækkunum á vöruverði.

Þannig telja Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði að neytendum hafi verið hlíft við gríðarlegum verðhækkunum á aðföngum bænda í gegnum hagræðingu í mjólkuriðnaði. Samtök afurðastöðva telja að á næstu misserum verði hægt að ná fram töluverðri viðbótarhagræðingu í greininni, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði eru hagsmunasamtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði og voru stofnuð árið 1985.