„Mér hlýnaði um hjartarætur,“ sagði Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður nefndar sem leitar eftir stuðningi við bændur á Norðurlandi sem urðu fyrir búsifjum í veðuráhlaupinu á Norðurlandi snemma í september. Guðni hefur tekið við styrk Vátryggingafélags Íslands (VÍS) sem lagði bændum til eina og hálfa milljón króna í fjársöfnuninni. Talið er að 10 þúsund fjár hafi drepist í veðurhamnum.

Fram kemur í tilkynningu frá VÍS að söfnun til að styðja við bakið á bændum hafi verið hleypt af stokkunum á Sauðárkróki nýverið í tengslum við bændadaga KS. Sérstök verkefnisstjórn hafi umsjón með söfnuninni og leitaði VÍS til hennar um að taka á móti fjárstyrki félagsins til bænda.

Haft er eftir Guðna í tilkynningunni að Guðni hafi verið kallaður til fundar hjá VÍS og hafi hann fundið strax fyrir velvilja starfsmanna VÍS til bænda á Norðurlandi.

Þá segir í tilkynningunni að VÍS hafi alla tíð lagt ríka áherslu á veita bændum bestu þjónustu sem völ er á enda fjölmargir þeirra í viðskiptum við félagið. Árið 1999 hafi verið gerður sérstakur rammasamningur við Bændasamtökin þar sem landbúnaðartrygging VÍS er hornsteinninn. Sex bændafulltrúar starfa hjá VÍS sem ýmist heimsækja eða hafa reglulega sambandi við bændur til að fara yfir tryggingaþörf þeirra, forvarnir og öryggismál. Með sívaxandi áherslu á forvarnir og nánu samstarfi við viðskiptavini má í mörgum tilvikum fyrirbyggja tjónin, öllum til hagsbóta.