© Aðsend mynd (AÐSEND)

Guðný Benediktsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Líflands/Kornax frá og með 1. september næstkomandi. Hún tekur við af Bergþóru Þorkelsdóttur.

Guðný lauk prófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1989 með áherslu á stjórnun og rekstur og MBA frá Colorado State University árið 1991.  Hún hefur fjölbreytta stjórnunarreynslu að baki úr ólíkum greinum atvinnulífsins. Síðast gegndi hún starfi forstöðumanns gæða- og öryggismála hjá Sjóvá.

Lífland er einn stærsti framleiðandi og þjónustuaðili á fóðurvöru hér á landi. Á undanförnum árum hefur Lífland byggt upp nýja og fullkomna fóðurverksmiðju á Grundartanga, sem verður endanlega öll tekin til starfa nú í haust.  Þá er Lífland einnig umsvifamikill innflytjandi og seljandi á vörum tengdum landbúnaði.  Lífland á og rekur verslanir í Reykjavík og á Akureyri þar sem þessar vörur eru m.a. seldar en auk þess eru þær verslanir öflugar í sölu á vörum tengdum hestaíþróttum og gæludýrahaldi.  Kornax er stærsti framleiðandi og þjónustuaðili hér á landi með kornvörur, hveiti og aðrar vörur tengdar bakaríum og bökun almennt.  Kornax á og rekur einu hveitimyllu landsins, sem staðsett er í Reykjavík.  Þá er Kornax innflytjandi á fóðri og vörum fyrir gæludýr ásamt fleiri vöruflokkum.  Félögin hafa á undanförnum árum ráðist í verulegar fjárfestingar til þess að geta boðið framúrskarandi vöru og þjónustu, sem er kjarninn í framtíðarsýn félagsins.

Guðný mun veita forystu fjölbreyttri framleiðslu-, sölu- og þjónustustarfsemi Líflands/Kornax og auk þess mun hún í krafti reynslu og þekkingar sinnar leiða áframhaldandi þróun félaganna til að bjóða viðskiptamönnum bestu þjónustu og vörugæði.

Guðný er gift Guðna Ingimarssyni, verkfræðingi og eiga þau tvo syni.