*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Fólk 12. janúar 2021 17:22

Guðný Hildur stýrir Útfararstofunni

Útfararstofa Kirkjugarðanna hefur ráðið Guðnjý Hildi Kristinsdóttur sem framkvæmdastjóra. Áður hótelstjóri og fjármálastjóri.

Ritstjórn
Guðný Hildur Kristinsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Útfarastofu Kirkjugarðanna, en hagnaður af starfsemi þessa elsta fyrirtækis landsins í útfarrarekstri ganga til rekstrar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis.
Aðsend mynd

Guðný Hildur Kristinsdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Útfararstofu Kirkjugarðanna og hefur hún þegar tekið til starfa.

Guðný Hildur er viðskiptafræðingur með MBA gráðu frá Háskóla íslands og próf í hagfræði frá Kanada. Hún hefur reynslu á sviði rekstrar, fjármála og þjónustu en hún starfaði á árunum 2012 – 2019 sem hótelstjóri 101 Hótels og þar áður sem fjármálastjóri prentsmiðjunnar Formprent.

„Ég er mjög ánægð með að fá þetta tækifæri og það mikla traust sem mér er sýnt. Ég er full eftirvæntingar að starfa með því góða fólki sem hér er og viðhalda góðu orðspori sem fylgt hefur Útfararstofunni frá upphafi,“ segir Guðný.

„Mér finnst líka einstaklega fallegt að allt frá stofnun Útfararstofunnar hefur allur ágóði af rekstrinum runnið til eigandans, Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og er notaður til samfélagslegra verkefna við rekstur kirkjugarðanna.“

Jóhann Úlfarsson stjórnarformaður Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmisins segist stoltur af öllu starfsfólki félagsins og bjóða Guðnýju Hildi velkomna til starfa.

„Við fögnum því sannarlega að fá jafn öflugan stjórnanda og Guðnýju Hildi til starfa og reynsla hennar og þekking bætir miklu við þá áralöngu þekkingu sem byggst hefur upp innan Útfararstofunnar, en starfsemi hennar nær aftur til ársins 1949, og er þannig elsta og reynslumesta fyrirtækið í útfararrekstri hérlendis,“ segir Jóhann Úlfarsson stjórnarformaður Kirkjugarðanna.