Guðný Hrund Karlsdóttir hefur verið ráðin sveitarstjóri Húnaþings vestra og verður þar með fyrsta konan til að gegna starfi sveitarstjóra í sveitarfélaginu.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu kemur fram að Guðný hafi undanfarin tvö ár starfað sem verkefnastjóri hjá Wise í Kanada þar sem hún hafi leitt innleiðingu stórra hugbúnaðarverkefna fyrir þarlend fyrirtæki. Áður starfaði hún fyrir Maritech á Íslandi sem viðskipta- og verkefnastjóri. Á árunum 2002-2006 starfaði hún sem sveitarstjóri á Raufarhöfn. Þá hefur Guðný Hrund gegnt fjölmörgum trúnaðar og ábyrgðarstörfum. Hún er með Cand. Oecon próf í viðskiptafræðum af fjármálasviði. Áformað er að hún hefji störf þann 1. ágúst 2014.

Um starf sveitarstjóra í Húnaþingi vestra sóttu 30 aðilar, 3 þeirra drógu umsókn sína til baka. Af þeim 27 umsækjendum sem eftir stóðu voru 8 konur og 19 karlar.