Guðrún Ögmundsdóttir hagfræðingur var endurkjörin formaður stjórnar landsnefndar UN Women á Íslandi á aðalfundi félagsins í gær.  Í stjórn sitja sem fyrr Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins, Kristjana Sigurbjörnsdóttir mannfjölda – og þróunarfræðingur, Frímann Sigurðsson verkefna- og verkferlastjóri,  Guðrún Norðfjörð markaðsráðgjafi og Hrefna Dögg Gunnarsdóttir lögfræðingur.

Ný í stjórn eru þau Arna Gerður Bang alþjóðastjórnmálafræðingur, Karen Áslaug Vignisdóttir hagfræðingur, Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans, Vilborg Ólafsdóttir leikstjóri og Magnús Orri Schram ráðgjafi. Í varastjórn sitja Fanney Karlsdóttir forstöðumaður og Soffía Sigurgeirsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur

Fram kemur í tilkynningu frá stjórn landsnefndarinnar að starfsemin hafi vaxið ört á undanförnum árum og aldrei fleiri styrkt samtökin með mánaðarlegu framlagi. Framlög til verkefna erlendis hækkuðu um 40 prósent milli áranna 2012 og 2013 og á íslenska landsnefndin hæsta framlag landsnefnda til Styrktarsjóðs Sameinuðu þjóðanna til afnáms ofbeldis gegn konum sem rekinn er undir hatti UN Women.