Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað Guðrúnu Agnesi Þorsteinsdóttur formann nýrrar úrskurðarnefndar velferðarmála til fimm ára.

Nefndin tekur til starfa 1. janúar næstkomandi við sameiningu sex úrskurðar- og kærunefnda sem starfa á málefnasviði velferðarráðuneytisins. Guðrún Agnes verður jafnframt forstöðumaður úrskurðarnefndarinnar.

Guðrún Agnes lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1991. Hún hefur frá árinu 2008 verið framkvæmdastjóri úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Árin 2001 til 2008 starfaði hún í félagsmálaráðuneytinu þar sem hún sinnti margvíslegum lögfræðilegum verkefnum og starfaði meðal annars fyrir úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, kærunefnd jafnréttismála og kærunefnd húsnæðismála. Áður starfaði hún um árabil hjá yfirskattanefnd en einnig hjá sýslumanninum í Reykjavík.