Guðrún starfaði áður á Fréttablaðinu og sem upplýsingafulltrúi hjá Perlan Museum áður en hún réð sig til starfa hjá H:N.

„Það er mikið tilhlökkunarefni að fá að taka þátt í öllum þeim spennandi verkefnum sem bíða mín," segir Guðrún í fréttatilkynningu. „Ég efast ekki um að reynsla mín úr fjölmiðlaheiminum eigi eftir að koma að góðum notum."

H:N Markaðssamskipti er 27 ára gömul auglýsingastofa sem leggur áherslu á alhliða markaðsmál - allt frá hefðbundnum auglýsingaherferðum yfir til almannatengsla.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Guðrúnu til starfa og hún er góð viðbóta við almannatengsladeildina okkar," segir Ingvi Jökull Logason, framkvæmdastjóri H:N Markaðssamskipta. Hann bendir jafnframt á að með komu Guðrúnar séu kynjahlutföllin á auglýsingastofunni orðin hnífjöfn.

Guðrún er þrítug og með BA-gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands. Hún ólst upp í Þorlákshöfn og gekk í Fjölbrautaskóla Suðurlands áður en leiðin lá í mannfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið námi í stafrænni markaðssetningu frá Opna háskólanum í Reykjavík.

Kærasti Guðrúnar er Einar Ben framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Tjarnargötunnar, og eiga þau einn son, Benedikt sem er þriggja ára.