Guðrún Ó. Blöndal hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Verðbréfaskráningar Íslands.

Guðrún er Cand. Oecon.  frá  Háskóla Íslands og  í tilkynningu frá Verðbréfaskráningu Íslands segir að hún búi yfir víðtækri reynslu af verðbréfamarkaði. Hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra Arion verðbréfavörslu (síðar Verdis) allt frá stofnun árið 2002 til ársins 2012 þegar fyrirtækið var sameinað Arion banka. Áður hafði hún gegnt ýmsum ábyrgðarstöðum hjá Kaupþingi, m.a. í eignastýringu, sem markaðsstjóri og starfsmannastjóri. Að undanförnu hefur Guðrún setið  í stjórnum Regins fasteignafélags, Framtakssjóðs Íslands, Varðar tryggingafélags, Varðar líftrygginga og Mílu.

„Ég býð Guðrúnu velkomna til starfa. Verðbréfaskráning Íslands stendur frammi fyrir margvíslegum tækifærum og áskorunum sem varða hagsmuni íslensks verðbréfamarkaðar.  Ég fagna því að við munum njóta þekkingar og reynslu  Guðrúnar á þeirri vegferð sem framundan er.“ sagði Hans-Ole Jochumsen, stjórnarformaður Verðbréfaskráningar Íslands, í tilkynningu vegna ráðningarinnar.