Nýlega bættust þrír nýir starfsmenn í 30 manna hóp stafrænu auglýsingastofunnar Sahara, þær Guðrún Andrea Sólveigardóttir, Erla Arnbjarnardóttir og Júlía Hvanndal.

Guðrún Andrea Sólveigardóttir hefur starfað við markaðsmál síðustu 4 ár en síðastliðin 2 ár starfaði hún sem samfélagsmiðlafulltrúi hjá Icelandair hótels. Hún hefur stundað nám í innanhússarkitektúr frá IED í Barcelona, einnig hefur hún lagt stund á nám í arkitektúr í Álaborgarháskóla og er nú að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði frá Háskólanum á Akureyri.

Erla Arnbjarnardóttir er sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu og hefur starfað að markaðsmálum í rúm 6 ár. Lengst af starfaði hún hjá auglýsingastofunni Pipar\TBWA. Erla er útskrifuð sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Júlía Hvanndal er hönnuður og hefur um 10 ára reynslu í mörkun og hönnun fyrir fjölmörg fyrirtæki og stofnanir á Íslandi. Hún starfaði áður sem hönnuður á auglýsingastofunni Brandenburg auk þess að vera í eigin rekstri. Júlía er með BA gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands.

Vinna að jafnara kynjahlutfalli

Davíð Lúther , framkvæmdastjóri Sahara segist virkilega ánægður með nýlegar ráðningar félagsins. „Sahara hefur stækkað gríðarlega hratt og má búast við frekari stækkun á næstu mánuðum, enda eru fjölmörg fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög farin að nýta stafræna miðla í auglýsingamálum,“ segir Davíð.

„Samhliða miklum vexti hjá fyrirtækinu höfum við markvisst verið að vinna að því að jafna kynjahlutfallið og auka breidd í menntun og reynslu meðal starfsfólks. Við lítum svo á að jafnvægi á okkar vinnustað, í breiðum skilningi þess orðs, skili sér í betri vinnu og ánægju starfsfólks sem viðskiptavinir okkar njóta góðs af.“

Um Sahara:

Sahara er stafræn auglýsingastofa sem býður upp á heildstæða lausn á sviði stafrænnar markaðssetningar fyrir fyrirtæki og stofnanir að því er segir í fréttatilkynningu. Sérhæfir fyrirtækið sig í umsjón með samfélagsmiðlum og stafrænum herferðum, myndbanda- og auglýsingagerð, grafískri hönnun og ljósmyndun, árangurmælingum og öðrum stafrænum lausnum.