*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Fólk 16. janúar 2018 11:21

Guðrún forstjóri Framkvæmdasýslunnar

Bjarni Benediktsson hefur skipað Guðrúnu Ingvarsdóttur sem forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur tekið ákvörðun um að skipa Guðrúnu Ingvarsdóttur í embætti forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins að því er segir á vef stjórnarráðsins.

Guðrún er með M.Sc. próf í stjórnun og stefnumótun frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands en lokaverkefni hennar þar fjallaði um umbætur í samkeppnishæfni íslensks byggingariðnaðar. Þá er hún með M.Sc. gráðu í arkitektúr og löggildingu sem arkitekt. 

Guðrún hefur reynslu af bygginga- og húsnæðismálum en hún hefur undanfarið starfað í velferðarráðuneytinu við innleiðingu á aðgerðaráætlun stjórnvalda í húsnæðismálum. 

Starfaði hjá Búseta, Arkþing og Arkís

Áður starfaði Guðrún um árabil hjá Búseta sem forstöðumaður þróunar og nýframkvæmda og sem arkitekt og hönnunarstjóri hjá Arkþing og Arkís. Hún hefur jafnframt komið að ýmissi hagsmuna- og greiningarvinnu innan málaflokksins hérlendis og á norrænum vettvangi. Alls bárust 28 umsóknir um stöðu forstjóra en þrír drógu umsóknir sínar til baka.

Hlutverk Framkvæmdasýslu ríkisins er að vera leiðandi afl á sviði opinberra framkvæmda með það að markmiði að bæta verklag og auka skilvirkni, hagkvæmni og gæði við framkvæmdir ríkisins. Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr.84/2001 um skipan opinberra framkvæmda og þar starfa 18 starfsmenn.