Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna, hefur ákveðið að hætta störfum hjá sjóðnum og hefur staðan verið auglýst laus til umsóknar á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

„Skipunartími minn hefði runnið út í febrúar á næsta ári og ég var búin að taka þá ákvörðun síðasta vetur að hætta. Ég vildi hins vegar bíða þar til nýr ráðherra væri tekinn við áður en ég greindi honum frá ákvörðuninni. Ég taldi heppilegra að geyma þetta fram yfir kosningar.“

Guðrún segist ætla að fara aftur í það starf sem hún gegndi áður en hún tók við taumunum hjá LÍN, þ.e. sem sjálfstæður ráðgjafi hjá fyrirtækinu Strategíu. „Þegar maður er að koma aftur í þennan bransa er betra að byrja í upphafi vetrar en nær lokum hans.“