Í framhaldi af skipulagsbreytingum á sölu- og markaðssviði Icelandair hefur Guðrún Aðalsteinsdóttir tekið við sem forstöðumaður Þjónustuvara (e: Service Products). Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair.

Deildin hét áður Sala og Þjónusta um borð en með breyttu skipulagi eykst umfang hennar til muna. Markmið þessara breytinga er að hafa þarfir viðskiptavinarins ávallt í huga þegar kemur að því að skapa þjónustutekjur fyrirtækisins að því er segir í tilkynningunni.

Guðrún hefur verið búsett í Nýja Sjálandi síðastliðin þrjú ár þar sem hún starfaði hjá ráðgjafafyrirtækinu Central Technical Advisory Services, fyrst sem yfirmaður verkefnastofu og seinna sem yfirmaður ráðgjafar á sviði rekstrarumbóta og stefnumótunar í heilbrigðisþjónustu. Áður starfaði hún hjá Novo Nordisk Engineering (NNE) í Kaupmannahöfn við verkefnastýringu og áætlanagerð. Guðrún er rekstrarverkfræðingur með M.Sc. frá Tækniháskólanum í Danmörku.