Guðrún Blöndal og Martha Eiríksdóttir tóku sæti í tryggingafélaginu Verði á aðalfundi félagsins 11. apríl síðastliðinn. Á fundinum gekk Friðrik Jóhannsson úr stjórn og tóku þær Guðrún og Martha sæti í henni. Fyrir í stjórn Varðar eru þeir Jens Erik Christensen, Janus Petersen, bankastjóri Bank Nordik, og Jón Björnsson.

Fram kemur í tilkynningu frá Verði að tryggingafélagið uppfylli nú ákvæði laga um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja sem kveða á um að hlutfall hvors kyns skuli ekki vera lægra en 40%. Bæði stjórn og varastjórn Varðar uppfylla ákvæði laganna en lögin taka gildi þann 1. september næstkomandi.

Kynjahlutföllin eru sömuleiðis jöfn í framkvæmdastjórn Varðar. Í henni sitja Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri; Guðrún Einarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs; Steinunn Hlíf Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri tjónasviðs; Harpa Víðisdóttir, mannauðsstjóri; Sigurður Óli Kolbeinsson, framkvæmdastjóri vátryggingasviðs, og Atli Örn Jónsson, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs.