Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur skipað Guðrúnu Ragnarsdóttur formann stjórnar Samkeppniseftirlitins í stað Auðar Finnbogadóttur sem nýlega baðst lausnar. Guðrún hefur setið í stjórn Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2013. Jafnframt hefur ráðherra skipað Ástu Dís Óladóttur í stjórnina.

Guðrún Ragnarsdóttir starfar sem ráðgjafi og er meðeigandi hjá Strategíu ehf. Hún er viðskiptafræðingur frá Carleton University í Ottawa, Kanada og með MBA frá Nyenrode University í Hollandi.

Guðrún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu en hún hefur bæði starfað í einka- og opinbera geiranum. Guðrún hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja  og stofnana, m.a. sem stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins 2011 til 2014.

Ásta Dís Óladóttir er framkvæmdastjóri Norðurafls.  Hún er með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun og doktorspróf í alþjóðaviðskiptum frá Copenhagen Business School.

Hún hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu þar sem hún hefur starfað bæði í opinbera- og í einkageiranum og hefur setið í fjölmörgum stjórnum, ráðum og nefndum. Þá var hún deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst um skeið.