Guðrún Ögmundsdóttir, sem vinnur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, hefur verið skipuð formaður verkefnastjórnar til að annast framkvæmd almennrar höfuðstólslækkunar íbúðalána heimilanna. Verkefnisstjórninni er ætlað að hafa yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd verkefnisins. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjóri og annað nauðsynlegt starfslið starfi með verkefnisstjórninni. Skipunartími verkefnisstjórnarinnar er til eins árs en mögulegt er að það tímabil verði framlengt ef nauðsynlegt þykir. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti skipan verkefnisstjórnarinnar á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Guðrún situr í verkefnastjórninni fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytis, ásamt Guðmundi Pálsson. Þá sitja þau Benedikt Árnason og Sigrún Ólafsdóttir í verkefnastjórninni fyrir hönd forsætisráðuneytis. Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir situr svo í stjórninni fyrir hönd velferðarráðuneytis.

Fram kemur á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins að skipun nefndarinnar er gerð í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2013 sem miðar að því að lækka húsnæðisskuldir heimila í landinu. Annars vegar er um að ræða lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattaívilnun vegna ráðstöfunar framtíðar séreignarlífeyrissparnaðar til greiðslu húsnæðisskulda eða kaupa á húsnæði.

Hlutverk verkefnisstjórnarinnar snýr m.a. að eftirfarandi verkþáttum: Aðgerðar- og kostnaðaráætlun, undirbúningi lagafrumvarps, framkvæmd skuldaleiðréttingar, úttekt á áhrifum leiðréttingar á hópa og eftirliti með leiðréttingarferli.