Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss í Hveragerði, gefur kost á sér sem formaður Samtaka iðnaðarins. Svana Helen Björnsdóttir, stofnandi og stjórnarformaður Stika, er nú formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins og er hún jafnframt í framboði til formanns og eru þær einar í slagnum um formannssætið . Kosið verður um næsta formann stjórnar samtakanna á aðalfundi þeirra 6. mars næstkomandi. Framboðsfrestur rann út í dag.

Guðrún Hafsteinsdóttir er einn af eigendum Kjöríss ásamt fjölskyldu sinni og á hún sæti í stjórn fyrirtækisins. Guðrún situr sömuleiðis í stjórn Samtaka iðnaðarins. Hún var kjörin til setu þar vorið 2011 og endurkjörin á Iðnþingi í fyrra.

Vill kjósa um aðild að ESB

Guðrún segir í tilkynningu um framboðið að hún vilji ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og kjósa um aðildarsamning.

Í tilkynningu hennar segir orðrétt:

„Ná þarf sem hagstæðustu samningum fyrir allar atvinnugreinar og almenning og leggja niðurstöðuna í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég treysti dómgreind þjóðarinnar í þessu stóra máli. Afnema ætti virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað. Það er gríðarlega mikilvægt að minnka svarta vinnu og ég vil festa í sessi átakið „Allir vinna“.  Þá þarf að einfalda regluverk atvinnulífsins og stóran hluta skattkerfisins. Endurskoða þarf vsk-skattkerfið frá grunni.  Við þurfum hagfellt skattkerfi og hvata fyrir nýsköpun og skapandi greinar. Ég vil endurskoða tolla- og vörugjalda kerfið. Það stendur íslenskum iðnaði stórlega fyrir þrifum og hækkar verðlag í landinu. Þetta er afleitt kerfi sem skilar litlu. Við verðum að koma fjárfestingum af stað og það verður að lækka vexti. Þetta háa vaxtarstig er meinsemd í íslensku samfélagi. Gera þarf átak á sviði samgönguframkvæmda og Samtök iðnaðarins þurfa að vinna með stjórnvöldum að því marki. Þá er aldrei of oft sagt að það er forgangsmál að losa landið úr gjaldeyrishöftum. Breiddin í Samtökum iðnaðarins er mikil og við þurfum að gæta hagsmuna allra, smárra jafnt sem stórra fyrirtækja.“