Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, lýsti því yfir á Alþingi rétt í þessu að hún styddi tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Þar með styður hún breytingartillögu sjálfstæðismanna við ESB-tillögu ríkisstjórnarinnar.

Fram kom í ræðu Guðfríðar Lilju að hún væri harður andstæðingur Evrópusambandsins. Hún bætti því hins vegar við að í ljósi þess hve miklar deilur væru um málið væri heiðarlegast að leita afstöðu þjóðarinnar.

Þess vegna myndi hún ekki styðja að farið yrði í aðildarviðræður nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lítill fugl með appelsínugulan punkt

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, sem einnig er andsnúinn aðildarviðræðum sagði við upphaf umræðunnar um málið á Alþingi fyrir helgi að honum hefði borist til eyrna að stjórnarslit yrðu ef hann styddi breytingartillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar hann var spurður að því á þingfundi í gærkvöld hver hefði hvíslað slíku í eyra hans svaraði hann því til að það hefði verið lítill fugl með appelsínugulan punkt á enninu.