Guðjón Bergmann, rithöfundur, fyrirlesari og jógakennari er hættur við að flytja til Bandaríkjanna.

Þann 16. janúar síðastliðinn sendi Guðjón frá sér tilkynningu þess efnis að hann og kona hans myndu flytja af landi brott á komandi hausti.

„Ástæða fyrirhugaðra flutninga var ákvörðun eiginkonu minnar, Jóhönnu Bóel, um að stunda framhaldsnám í Bandaríkjunum eða Bretlandi. Í sameiningu höfum við undirbúið flutninga ljóst og leynt í tæp tvö ár,“ segir í tilkynningu frá Guðjóni.

„Í dag er hins vegar komin upp breytt staða. Nýverið bauðst Jóhönnu einstakt tækifæri til að hefja rannsóknartengt framhaldsnám innan Háskólans í Reykjavík. Eftir náið samráð okkar hjóna og miklar vangaveltur höfum við því tekið ákvörðun um að vera áfram á Íslandi. Við erum bæði mjög ánægð með þá ákvörðun enda er hún í algjöru samræmi við yfirlýst markmið Jóhönnu um framhaldsnám á háskólastigi,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að þrátt fyrir að Guðjón verði áfram á Íslandi næstu árin mun hann engu að síður  halda námskeiðið „Þú ert það sem þú hugsar“ í síðasta skipti í lok maí.

„Í framhaldi af því mun ég fara í fæðingarorlof til áramóta og nota tímann til að íhuga stöðu mína. Ég er mjög þakklátur öllum þeim sem hafa sótt námskeið mín og fyrirlestra síðastliðin ár og ég fagna því að fá að vera áfram hér á landi. En eins og staðan er í dag veit ég ekki hvar eða við hvaða verkefni ég mun starfa næstu árin eða hvaða vettvangur mun verða fyrir valinu. Ég hef komið víða við á ferli mínum og næsta hálfa árið mun ég litast um eftir tækifærum og einbeita mér að því að finna yfirgripsmikilli reynslu minni jákvæðan og uppbyggilegan farveg,“ segir Guðjón í tilkynningunni.