Guðjón Már Guðjónsson hefur hlotnast sá einstaki heiður að vera valinn einn af 10 framúrskarandi ungum einstaklingum í heiminum af Junior Chamber International (JCI). Verðlaunin verða veitt 17. nóvember á heimsþingi JCI í Hammamet í Túnis.

Síðan 1938 hefur Junior Chamber í Bandaríkjunum útnefnt framúrskarandi einstaklinga fyrir störf sín í þágu samfélagsins. Margir þekktir einstaklingar hafa hlotið þennan heiður og má þar nefna Howard Hughes (1938). John F Kennedy (1946) og Elvis Presley (1970).

Síðan 1983 hefur Junior Chamber International valið tíu einstaklinga úr hópi tilnefndra frá aðildarlöndunum sem eru rúmlega 100. Dómnefndin sem velur einstaklingana úr þúsundum umsókna er skipuð fjórum einstaklingum og eru þrír frá Sameinuðu þjóðunum (UN Global Compact Executive Director Georg Kell, International Chamber of Commerce-World Chambers Federation Director Anthony Parkes, UN Foundation President Timothy E. Wirth) ásamt forseta JCI Jun Sup Shin.

Guðjón Már er útnefndur fyrir frumkvöðlastarf en hann hefur frá 13 ára aldri komið að fjölmörgum verkefnum á sviði fjarskipta og upplýsingatækni segir í tilkynningu. Hann hefur einnig unnið að því að efla frumkvæði og nú síðast með stofnun Hugmyndaráðuneytisins sem hefur það að markmiði að miðla þekkingu, auka fjölbreytni í atvinnulífinu og stuðla að samfélagsbótum.