Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa farið fram á fund í viðskiptanefnd vegna sölu Landsbankans á Vestia. Óskað er eftir upplýsingum sem beðið var um í fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni til fjármálaráðherra þann 18. nóvember síðastliðinn. Fyrirspurninni hefur ekki verið svarað, en hún var:

„Á hvaða verði og kjörum selur Landsbankinn EJS, HugAx, Húsasmiðjuna, Icelandic Group, Plastprent, Skýrr, Teymi og Vodafone? Hvernig skiptist kaupverðið, hvert verður virði hlutafjár og skulda og hvaða skuldir verða yfirteknar? Svar óskast sundurliðað eftir fyrirtækjum.“

Einnig er farið fram á að vita hvenær þessar eignir fara í opið söluferli og hver staða málsins sé í dag. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fara fram á að fulltrúar frá Landsbankanum og Bankasýslunni mæti fyrir nefndina.