Harkaleg viðbrögð alþjóðasamfélagsins og frysting eigna Muammer Gaddafi, einræðisherra í Líbíu, gætu dugað skammt til þess að berja niður veldi hans. Seðlabankinn í Líbíu, sem er undir stjórn Gaddafis, heldur um 143,8 tonn af gulli samkvæmt nýjustu gögnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sumir telja að talan sé hærri. Financial Times fjalla um málið í dag.

143 tonna gullforðinn er meðal 25 stærstu forða í heiminum. Virðið er rúmlega 6,5 milljarðar dala miðað við núverandi gengi gulls. Í frétt FT segir að það sé nóg til að greiða litlum her málaliða í marga mánuði og jafnvel í einhver ár.

Ólíkt mörgum öðrum ríkjum geymir Gaddafi gullið í sínu eigin landi. Algengt er að það sé geymt í hvelfingum í London, New York eða Sviss.

Eignir sem nema milljörðum dala hafa verið frystir af evrópskum og bandarískum stjórnvöldum í kjölfar uppreisnar í Líbíu. En gullforðinn gæti reynst líflína fyrir Gaddafi. Til þess að svo verði þarf hann þó að koma gullinu úr landi og í verð.