Verð á gulli hefur aldrei verið hærra, að sögn greiningardeildar Landsbankans. Verð á gulli hækkaði um 2,6%, í 880,29 dollara á únsu í London í gær og náði því fyrra meti frá 3. janúar á þessu ári.

"Talið er að hátt olíuverð og veikur dollari hafi örvað almenna eftirspurn eftir eðalmálmum. Spár gera ráð fyrir að verð á gulli muni lækka á ný þegar dollarinn styrkist," segir greiningardeildin.

Hún segir að eftirspurn eftir gulli sé talin meiri sökum þess að ávöxtun S&P 500 hlutabréfavísitölunnar fyrstu daga ársins hafi reynst sú versta síðan árið 2000. Fjárfestingasjóðir beina því fjárfestingum sínum meira í hrávörur en oft áður. Samkvæmt spám sem Bloomberg birtir er talið að únsa af gulli muni kosta að meðaltali 800 USD á þessu ári samanborið við 696 dollara í fyrra.

Verð á olíu lækkaði mikið fyrir tveimur dögum eða um 2,63% og er það mesta lækkun í fimm vikur. Í gær hækkaði verð á ný og stendur nú í 95,96 dollurum.