Verð gulls heldur áfram að hækka. Nú hefur verð á eina trójuúnsu góðmálmsins gyllta náð 1.300 Bandaríkjadölum - en verðið hefur ekki verið svo hátt síðan í janúar 2015. Þetta kemur fram á fréttaveitu Bloomberg.

Ein slík únsa kostar því um 157 þúsund íslenskar krónur. Rétt rúmar 32 trójuúnsur eru jafnþungar og eitt kílógramm, sem þýðir að kílóverð gulls er um fimm milljónir króna.

Ástæða þessarar verðhækkunar gæti haft eitthvað með það að gera að stýrivöxtum í Bandaríkjunum var haldið óbreyttum í 0,25-0,5% í síðustu viku - sem gerir gull verðmætara fyrir mörgum fjárfestum þar eð lágir stýrivextir seðlabankans veikja Bandaríkjadalinn.

Verð gulls helst oftar en ekki í hendur við hversu áhættusamir verðbréfamarkaðir eru - og verkar málmurinn því sem eins konar öryggisráðstöfun fyrir þeim sem eru hræddir um að tapa miklu fé á hlutabréfamörkuðum.