Verð gulls hefur hækkað um einhver 2,3% og fór yfir 1.200 Bandaríkjadala markið í fyrsta sinn síðan í júní á síðasta ári. Gengi hlutabréfa gullgreftrarfélaga hefur þá einnig farið hækkandi - en vísitala 30 félaga í kauphöll Fíladelfíu í Bandaríkjunum hækkaði um rúm 6%.

Þá var hækkun gengis Newmont Mining Corporation sú þriðja mesta á 500 fyrirtækja vísitölu Standard & Poor’s, en fyrirtækið er einn stærsti gullframleiðandi heims. Frá ársbyrjun hefur gull hækkað mest allra verslunarvara eða um 13%.

Fjárfestar selja nú í auknum mæli hlutabréf sín vegna óstöðugleika og bjarnaraðstæðna á verðbréfamörkuðum á heimsvísu. Frá byrjun árs hafa 2,6 milljarðar Bandaríkjadala flætt inn í fjárfestingarsjóði sem sérhæfa sig í eðalmálmum á borð við gull.