Gullverð lækkaði um 1 prósent á heimsmörkuðum í gær. Verðið hefur ekki verið lægra síðan snemma á árinu 2010. Hæst fór gullverð í rúmar 1.800 dollara á únsu sumarið 2011, en nú stendur verðið í 1.132 dollurum á únsu og hefur því lækkað um um það bil 40% á fjórum árum.

Gull hefur ákveðna eiginleika sem hefur heillað fjárfesta í gegnum aldirnar. Eiginleikar gulls eru varanlegir: það ryðgar ekki, rotnar hvorki né afmyndast á annan hátt. Gullklumpi er auðvelt að skipta í minni einingar og það er fágætt, þannig að ólíklegt er að verðgildi þess minnki aðeins vegna meira framboðs. Og þrátt fyrir allt virðist gull ennþá hafa hlutverk í fjármálakerfi nútímans.

Falinn fjársjóður

Í gær kom í ljós að gulleignir kínverska ríkisins væru mun minni, jafnvel þrefalt minni, en áður var talið. Þetta kom fjárfestum í opna skjöldu, því almennt var talið að Kínverjar hefðu áhuga á að kaupa upp gull í mun meira mæli. Reyndar hefur þetta vakið upp spurningar um hvar allt gullið sé niðurkomið, því það þykir vera vitað með talsverðri vissu hversu mikið gull er til í heiminum.

Einn af helstu eiginleikum gulls sem fjárfestingartækis er að það ber enga vexti. Lágt vaxtastig í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar, auk mikillar óvissu um fjármálakerfi heimsins, gerði gull meira aðlaðandi í augum fjárfesta enda þrefaldaðist það í verði á tímabilinu frá 2007 til 2011.

Nú eru hins vegar sífellt meiri væntingar um að bandaríski seðlabankinn fari að ráðast í vaxtahækkanir. Bandarísk ríkisskuldabréf eru talin með öruggustu eignum í heimi og eru í svipuðum flokki og gull hvað það varðar. En ríkisskuldabréf bera vexti, ólíkt gulli, og þeim mun hærri sem vextirnir eru, þeim mun meira óaðlaðandi verður gullið í augum fjárfesta.

Hvað þýðir þetta fyrir Ísland?

Margir ímynda sér að ef gjaldmiðlakerfi heimsins springur - af einhverri ástæðu - muni gull hljóta aftur sess sem gjaldmiðill. Seðlabanki Íslands á um þessar mundir gull fyrir um 10 milljarða króna að markaðsvirði. Því hafa sveiflur í gullverði áhrif á efnahagsreikning bankans.

Það helsta sem lækkun gullverðs getur kennt okkur er þó kannski það að fjárfestar úti í hinum stóra heimi eru sífellt að leita að betri ávöxtun. Það á ekki síst við á þessum síðustu og verstu tímum þar sem meira að segja lágvaxtasvæði eins og evrusvæðið virðast vera full af hættum og óvissu.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum eru fjárfestar farnir að leita nýrra leiða til að fjárfesta hér á landi og njóta þannig góðs af hinu háa vaxtastigi. Aflétting hafta mun líklega ýta enn undir þessa þróun.